Hátíðin fer fram 21. til 23. júní næsta sumar en þetta verður fimmta árið í röð sem hún fer fram. Fréttastofa náði ekki í Friðrik Ólafsson, stjórnarformann Solstice Productions, við vinnslu fréttarinnar. Friðrik sagði við DV um miðjan október að lítið fjármagn væri til staðar hjá fyrirtækinu.
„Það verður engin hátíð á næsta ári ef fjárfestar setja ekki aukið fjármagn inn í fyrirtækið. Veðrið fór alveg með okkur fjárhagslega á síðustu hátíð.“
Solstice Productions kom sömuleiðis að tónleikum Guns N'Roses síðasta sumar. Starfsfólk við hátíðina segist sumt hvert enn eiga eftir að fá laun greidd fyrir ýmsa vinnu. Friðrik sagði aðspurður hvort starfsfólkið ætti von á að fá greidd laun að nánast ekkert fjármagn væri í fyrirtækinu.
Katrín Ólafsson, verkefnastjóri hjá Secret Solstice og systir Friðriks, sagði í bréfi til borgarinnar í haust að eigendur hátíðarinnar hefðu lagt til 250-300 milljónir króna undanfarin fimm ár. Meðal eigenda er fyrrnefndur Friðrik og Joco ehf. félag Jóns Ólafssonar sem lengi var kenndur við Skífuna.
Solstice-liðar hafa horft hýru auga til Klambratúns sem þeir telja betur til þess fallið að hýsa tónlistarhátíðina. Eftir tíðindi dagsins er ljóst að ekkert verður af flutningi hátíðarinnar að svo stöddu.
Ekki náðist í skipuleggjendur Secret Solstice við vinnslu fréttarinnar.