Þegar lögreglu bar að garði hafði öryggisvörður staðarins, hinn 26 ára gamli Jemel Roberson, snúið árásarmann í jörðina og hélt honum föstum niðri.
Örskömmu eftir að lögreglu bar að garði hafði lögregluþjónn skotið öryggisvörðinn Roberson til bana.
Elti árásarmanninn með skotvopn í hönd
Talskona lögreglunnar í Cook sýslu, Sophia Ansari, segir lögreglu hafa verið kallaða til vegna slagsmála og skotárásar á áðurnefndum skemmtistað, fjórir urðu fyrir skoti í áflogunum.Vitni að nafni Adam Harris tjáði Fox32 að öryggisvörðurinn Roberson hafi elt uppi einn árásarmanna með skotvopn sitt í hönd. Roberson hafði leyfi fyrir skotvopninu.
„Öryggisvörðurinn sem var drepinn, hann náði einhverjum og hélt honum niðri með hnénu. Hann var bara að bíða eftir því að lögreglan mætti á svæðið. Ég býst við því að lögreglan hafi haldið að hann væri einn af árásarmönnunum því hann beindi byssu sinni að árásarmanninum“ sagði Harris.
„Sáu svartan mann með byssu og drápu hann“
Harris bætti við að nærstaddir hefðu reynt að láta lögreglu vita að Roberson væri öryggisvörður. „En þeir gerðu samt sitt, sáu svartan mann með byssu og drápu hann.“Vinir Roberson hafa lýst honum sem tónelskum manni sem hafi verið kirkjunnar maður. Roberson var orgelleikari í fjölda kirkna og stefndi á að ganga til liðs við lögregluna.