Innlent

Líkamsleifar Þorsteins og Kristins komnar til byggða

Andri Eysteinsson skrifar
Þorsteinn, hér til til vinstri og Kristinn, til hægri.
Þorsteinn, hér til til vinstri og Kristinn, til hægri. Mynd/Torfi Hjaltason
Líkamsleifar þeirra Þorsteins Guðjónssonar og Kristins Rúnarssonar sem fórust í hlíðum fjallsins Pumo-Ri í Nepal haustið 1988 hafa verið fluttar úr fjallshlíðinni og til Katmandú. Þetta staðfestir Snævarr Guðmundsson, landfræðingur, í samtali við Vísi.

Bandarískur fjallgöngumaður á ferð upp Pumo-Ri rakst á lík þeirra fyrr í mánuðinum.

Bandaríkjamaðurinn fann skilríki í klæðnaði þeirra og kom skilaboðum um fundinn til Bretlands sem á endanum bárust til Íslands.

Sjá nánar: Segir fréttirnar af líkfundinum góðar en þungar

Leifur Örn Svavarsson, fjallaleiðsögumaður, hefur undanfarið farið fyrir leiðangri með það að markmiði að endurheimta líkamsleifar Þorsteins og Kristins.

Að sögn Snævars hefur Leifur ásamt sjerpum unnið að því flytja líkin ásamt búnaði þeirra til Katmandú. Þar verða líkamsleifarnar rannsakaðar af hálfu nepalskra yfirvalda til þess að tryggja að um Þorstein og Kristinn er að ræða.

Forsíða Morgunblaðsins, 26. október 1988

Á von á því að hópurinn snúi heim í vikunni

Að loknum þeim rannsóknum er málinu lokið af hálfu nepalskra yfirvalda. Hópur aðstandenda og vina Þorsteins og Kristins er staddur í Nepal ásamt Leifi sem Snævarr segir eiga mikið hrós skilið fyrir sitt framlag í málinu.

Snævarr segist eiga von á því að hópurinn komi heim í vikunni en segir að það ráðist í raun af niðurstöðum frumrannsókna á líkamsleifunum.

Að sögn Snævars hefur hópurinn svigrúm til mánaðamóta en telur líklegt að rannsóknir ytra gangi hratt fyrir sig. 


Tengdar fréttir

Líkfundur í Himalajafjöllum ekki kominn í formlegt ferli

Samkvæmt upplýsingum frá bæði alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra og Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, hefur íslenska ríkinu ekki borist formlegt erindi varðandi tvö lík sem fundust í Himalajafjöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×