Skoðun

Heima er best

Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar
Flest vonumst við til að fá að eldast, halda heilsu og geta búið áfram á eigin heimili. Tölfræðin sýnir okkur að lífaldur Íslendinga er að hækka og heilsa eldra fólks að batna.

Hugtakið velferðartækni er tiltölulega nýtt á Íslandi en það nær yfir fjölmargar tæknitengdar lausnir í þágu notenda sem eru til þess fallnar að viðhalda eða auka færni, samfélagsþátttöku og lífsgæði. Velferðartækni getur fyrirbyggt eða verið viðbót við þá stuðningsþörf sem veitt er. Einnig getur hún aukið skilvirkni í þjónustunni og auðveldað samskipti milli notenda, aðstandenda og starfsfólks. Hugtakið er einkum notað á Norðurlöndunum en þau hafa unnið markvisst að því að kanna hvernig nýta megi nútímatækni til að þróa velferðarþjónustu. Velferðartækni er eitt af áherslumálunum í norrænu samstarfi og er nefnt sérstaklega í formennskuáætlun Noregs í Norðurlandaráði fyrir árið 2018. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla lögð á nýsköpun í heilbrigðismálum með því að nýta nýjustu tækni á því sviði og að styrkja þjónustu fyrir aldraða, þ.e. heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.

Velferðartækni hluti af heilbrigðisstefnu

Íslendingar geta nýtt sér reynslu nágranna okkar á Norðurlöndum og útfært verkefni sem þar hafa verið framkvæmd með góðum árangri. Undirrituð hefur því ásamt hópi þingmanna úr flestum flokkum lagt fram þingsályktunartillögu sem fjallar um að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem meti með hvaða hætti velferðartækni nýtist í þjónustu við eldra fólk og fólk með fatlanir. Hópurinn á að leggja áherslu á að skoða hvernig aðferðir, t.d. í fjarþjónustu, geti nýst hér á landi með hliðsjón af reynslu annars staðar á Norðurlöndum. Lagt er til að hópurinn skili áliti sem nýtist við gerð heilbrigðisstefnu sem nú er unnin í heilbrigðisráðuneytinu.

Ég er sannfærð um að í velferðartækni felast fjölmörg tækifæri fyrir okkur til að bæta þjónustu við aldraða og fólk með fatlanir, sem gerir fólki kleift að búa lengur heima hjá sér og njóta bestu þjónustu og lífsgæða.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×