Drögin sem samninganefndir Bretlands og ESB hafa samþykkt um framtíðarsamband eftir Brexit eru sanngjörn og góð. Þetta sagði Michel Barnier, sem leiðir samninganefnd sambandsins, á blaðamannafundi í gær. Barnier var þá nýbúinn að kynna fulltrúum hinna ESB-ríkjanna drögin.
„Við stöndum á afar mikilvægum tímapunkti í þessu ferli. Það ætti enginn að missa sjónar á þeim árangri sem hefur náðst í Brussel og Lundúnum,“ sagði Barnier.
Theresa May, breski forsætisráðherrann, hélt sjálf ræðu á ráðstefnu breskra iðnjöfra í Lundúnum og lofaði þar að standa með samkomulagi sínu þrátt fyrir hótanir samflokksmanna um vantraust. Samkvæmt Reuters tóku ráðstefnugestir almennt vel í ræðuna en voru ósáttir við alla þá ringulreið sem hefur ríkt vegna málsins undanfarna daga.
