Málið sem saksóknararnir sækja nú gegn lögmanninum snúast um það þegar Cohen gerðist sekur um að brjóta kosningalög með greiðslum til tveggja kvenna sem sögðust hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump. Þá ku Cohen einnig hafa gerst sekur um bankasvik.
Nú hafa alríkissaksóknarar í New York skilað inn dómskjali þar sem fram kemur að þeir telji rétt að Cohen afpláni fangelsisdóm til lengri tíma, mögulega í nokkur ár.
Þrátt fyrir samning þess efnis að Cohen fengi mildari dóm í skiptum fyrir upplýsingar sem hann gæti veitt, komust saksóknarar að þeirri niðurstöðu að sækjast eftir fangelsisdómi yfir Cohen. Byggist það aðallega á því að þrátt fyrir þær upplýsingar sem Cohen veitti hafi hann neitað að svara spurningum saksóknara um ýmis önnur mál.

Sérstakur rannsakandi ekki jafn harður
Cohen viðurkenndi í nóvember að hafa logið að þingnefndum Bandaríkjaþings um fasteignaverkefni sem Trump og fyrirtæki hans vann í Moskvu á meðan Trump bauð sig fram til forseta. Cohen hafði áður samið um mildari refsingu fyrir brot sín að því gefnu að hann gæti liðsinnt rannsakendum Rússarannsóknarinnar og veitt þeim upplýsingar sem myndu liðka og flýta fyrir gangi hennar. Cohen vildi í skiptum sleppa við fangelsisafplánun.Sérstakur rannsakandi í því máli, Robert S. Mueller, fer mýkri höndum um Cohen. Í minnisblaði frá honum kemur fram að þrátt fyrir að glæpir Cohen væru „alvarlegir“ hafi hann „tekið stór skref í átt að því að milda áhrif glæpsamlegs athæfis síns.“
Rannsóknarnefnd á vegum Mueller sagði samstaf Cohen hafa orðið til þess að rannsókninni miðaði betur áfram en annars væri. Þá var Cohen lofaður fyrir að hafa orðið rannsakendum úti um „þýðingarmiklar og mikilvægar upplýsingar um fólk innan Hvíta hússins á árunum 2017-2018.“
Samkvæmt minnisblaði Mueller á Cohen að hafa reitt fram nýjar upplýsingar um óþekktan rússneskan aðila sem setti sig í samband við kosningateymi Trump í nóvember 2015. Sá hafi sagst vera „manneskja sem treyst væri á“ innan rússneskra stjórnvalda og boðið framboði Trump „pólitíska samvirkni.“
Þessi óþekkti aðili hafi endurtekið stungið upp á fundi á milli Trump og Vladimir Pútín Rússlandsforseta og sagt slíkan fund geta haft „stórkostleg“ áhrif, bæði á sviði stjórnmála og viðskipta, að því er fram kemur í upplýsingum frá rannsóknarnefndinni. Ekkert hafi þó orðið úr fundinum.

Gæti afplánað nokkurra ára dóm
Ef alríkisviðmiðunarreglur um fangelsisdóma eru teknar til hliðsjónar má teljast líklegt að Cohen bíði allt að fimm ár bak við lás og slá. Að mati alríkissaksóknarans í New York ætti Cohen að fá örlítinn frádrátt af þeim dómi og eru þrjú og hálft ár talin viðeigandi refsing.Í skjali frá saksóknurum segir meðal annars að Cohen hafi „sóst eftir undraverðri linkind, að sleppa við fangelsisdóm, byggt á vanhæfni hans til þess að átta sig á alvarleika glæpa sinna, hugmynda um eigið ágæti og hvernig hann varð rannsakendum úti um ákveðnar upplýsingar.
Glæpir Cohen eru þó mun alvarlegri en hann lætur í veðri vaka og báru vott um þær blekkingar sem einkenndu starfsferil hans.“