Yfirvöld Ekvador segja ríkisstjórn Bretlands hafa heitið því að framselja Julian Assange, stofnanda Wikileaks, ekki til Bandaríkjanna. Því geti hann yfirgefið sendiráð Ekvador í London. Lenin Moreno, forseti Ekvador, sagði í viðtali í dag að hann hefði fengið skriflegt loforð Breta um að framselja Assange ekki til neins lands þar sem hann gæti verið dæmdur til dauða.
Hann tók þó ekki fram hvort að ríkisstjórn hans muni neyða Assange til að yfirgefa sendiráðið og sagði þess í stað að lögfræðingar hans væru að íhuga næstu skref.
Assange flúði til sendiráðsins og sótti um pólitískt hæli þar vegna þess að hann hafði verið ákærður fyrir nauðgun í Svíþjóð. Sú ákæra hefur þó verið felld niður en handtökuskipun var gefin út gagnvart Assange í Bretlandi vegna þess að hann mætti ekki fyrir dómara.
Yfirvöld Ekvador hafa nú um nokkuð skeið leitað leiða til að koma Assange út úr sendiráðinu án þess að hann yrði handtekinn. Ríkisstjórn landsins er ekki sú sama og þegar Assange sótti um hæli og hafa Bandaríkin verið að beita þrýstingi á Ekvador.
Svo virðist sem að saksóknarar í Bandaríkjunum hafi opinberað vegna mistaka að ákæra gegn Assange hafi verið undirbúin. Leynd hvíli hins vegar á ákærunni þar til og þá ef hann verður handtekinn.
Í dómsskjölunum sem um ræðir stóð að ákærurnar og handtökuskipun „yrðu að vera innsiglaðar þar til Assange verður handtekinn í tengslum við ákærurnar og hann gæti þar af leiðandi ekki lengur forðast handtöku og framsal“.
Jeff Sessions, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í fyrra að Bandaríkin ætluðu sér að handsama Assange og þar að auki hefur Robert Mueller verið að rannsaka Assange vegna Rússarannsóknarinnar svokölluðu.