Innlent

Vilja niðurgreiða innanlandsflug fyrir valda landsbyggðarbúa

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfshópurinn mótaði tillögur til að efla innanlandsflug sem almenningssamgöngur.
Starfshópurinn mótaði tillögur til að efla innanlandsflug sem almenningssamgöngur. Vísir/Anton
Starfshópur samgönguráðherra um innanlandsflug leggur til að farmiðar fyrir fólk með lögheimili á völdum svæðum á landsbyggðinni verði niðurgreiddir úr ríkissjóði. Þá er lagt til nýtt gjald til að fjármagna uppbyggingu varaflugvalla í millalandaflugi.

Í skýrslu hópsins er lagt til að þeir sem búa í 200-300 kílómetra akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu fái 50% af flugfargjöldum sínum til og frá svæðinu í einkaerindum niðurgreidd. Niðurgreiðslan nái að hámarki til fjögurra ferða fram og til baka á hvern einstakling á meðan reynsla kemst á kerfið.

Hópurinn vill að millilandaflugvellirnir; Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur verði skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn. Isavia verði falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra. Frá og með ársbyrjun 2024 verði millilandaflugvellirnir og aðrir flugvellir í grunnneti hluti af sama flugvallakerfi.

Samræma á þjónustugjöld á millilandaflugvöllum og tekið verður upp „hóflegt“ þjónustugjald á hvern fluglegg til að standa straum af uppbyggingu og rekstri kerfisins samkvæmt tillögu starfshópsins. Gjaldið gæti orðið á bilinu 100-300 krónur á hvern fluglegg.

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var formaður starfshópsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×