Samsýning Venusar og tunglsins í minnkandi sigð er í hámarki dagana 2. til 4. desember að því er segir á Stjörnufræðivefnum. Saman hafa þau skinið í suðaustri á morgnana við birtingu. Tunglið verður nýtt á föstudag og eftir það fer það vaxandi á kvöldhimninum. Samstaða tunglsins og Venusar endurtekur sig í byrjun janúar.
Þeir sem hafa aðgang að sjónauka geta séð að Venus er einnig sigðarlaga um þessar mundir. Ólíkt tunglinu er reikistjarnan vaxandi og er um fjórðungur skífu hennar upplýstur. Fölgulur litur Venusar skýrist af brennisteini í skýjunum sem hylja reikistjörnuna.

Líkindi reikistjarnanna enda þar. Jörðin býður upp á kjöraðstæður fyrir fjölbreytt lífríki en Venus er helvíti líkust. Hitinn við yfirborð Venusar nálgast 500°C og lofthjúpurinn er svo þéttur að við yfirborðið er loftsþrýstingurinn níutíu sinnum meiri en við sjávarmál á jörðinni. Það jafnast á við þrýstinginn á eins kílómetra dýpi í höfum jarðar. Sovésk geimför sem lentu á Venusi á 8. áratugnum entust aðeins í nokkrar klukkustundir áður en þau voru kramin eins og gosdósir.
Ástæðan fyrir því hversu ólíkar aðstæðurnar eru á þessum grannreikistjörnum er ekki hversu nær Venus er sólinni en jörðin. Þannig fær yfirborð jarðarinnar meiri orku frá sólinni en Venus vegna þess lofthjúpur Venusar er svo þykkur að hann endurvarpar 70% sólarljóss sem fellur á hann.
Vísindamenn telja að aðstæður á Venusi hafi getað líkst jörðinni í fyrndinni en lofthjúpar þeirra þróuðust síðan á gerólíkan hátt. Á Venusi leiddu óðagróðurhúsaáhrif til þess að höf fljótandi vatns gufuðu upp. Koltvísýringur sem eldfjöll Venusar spúðu frá sér leystist ekki lengur upp í höfunum heldur safnaðist fyrir í lofthjúpnum og jók enn á gróðurhúsahlýnunina þar til hitinn við yfirborðið jafnaðist á við í bakaraofni.
