Golf

Guðrún Brá þarf að hækka sig um 21 sæti á lokahringnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Mynd/GSÍ
Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili er í 46. sæti fyrir fimmta og síðasta hringinn á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi.

Guðrún Brá lék fjórða hringinn á 73 höggum í dag eða einu höggi yfir pari. Hún hefur leikið hringina fjóra á tveimur höggum yfir pari samanlagt.

Guðrún Brá var með þrjá fugla, tvo skolla og einn skramba á hringnum í dag.

Alls eru það 115 kylfingar sem keppa um 25 efstu sætin sem tryggja keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð kvenna í Evrópu, LET Evrópumótaröðinni. Alls eru leiknir fimm hringir á fimm keppnisdögum. Mótið fer fram í Marokkó og eru keppnisvellirnir tveir.

Guðrún Brá þarf því að hækka sig um 21 sæti ætli hún að tryggja sér keppnisrétt á næsta ári.

Kylfingurinn í 25. sæti er nú á tveimur höggum undir pari en þrjár eru jafnar í 25. til 28. sæti.

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni er með keppnisrétt á þessari mótaröð á næsta tímabili. Alls hafa þrjár íslenskar konur komist inn á LET-Evrópumótaröðina í gegnum lokaúrtökumótið. Ólöf María Jónsdóttir úr Keili, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR og Valdís Þóra Jónsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×