Enski boltinn

Redknapp um Mourinho: Skólabókardæmi um hegðunarmynstur ef þú vilt láta reka þig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Sky Sports fékk Jamie Redknapp til að meta það af hverju Mancheter United ákvað að reka portúgalska knattspyrnustjórann Jose Mourinho í dag.

Jamie Redknapp er á því að hegðunarmynstur Mourinho hafi verið skólabókardæmi ef þú vilt láta reka þig frá stórum klúbbi.

„Hvar eigum við að byrja? Ef þú værir að leitast eftir því að fara til félags til að gera allt rangt og láta reka þig, þá er besta að gera það sem Jose Mourinho gerði hjá Manchester United,“ sagði Jamie Redknapp.

Jamie Redknapp nefnir sérstaklega þá ákvörðun Jose Mourinho að búa á hóteli í Manchester í stað þess að koma sér betur fyrir.

„Þetta er einmitt andstæða þess sem Pep Guardiola gerði. Guardiola fann sér góðan stað til að búa á og naut þess að vera á svæðinu. Fólk bar mikla virðingu fyrir honum fyrir það. Þú sem knattspyrnustjóri setur ekki gott fordæmi með því að fara á hótel á hverjum degi,“ sagði Jamie Redknapp.

Þetta var líka spurning um leikstíl Manchester United undir stjórn Jose Mourinho en hann heillaði ekki marga knattspyrnuáhugamenn með honum.

„Jose Mourinho var ekki rétti knattspyrnustjórinn fyrir Manchester United þegar kemur að leikstíl. Manchester United hefur alltaf spilað sóknarbolta síðustu ár. Stuðningsmenn United vilja alltaf sjá sitt lið spila flottan fótbolta eins og liðið gerði undir stjórn Sir Alex Ferguson. Það gerðist aldrei hjá Mourinho,“ sagði Redknapp.

„Svo lenti hann upp á kant við stjórnina og við sína eigin leikmenn. Allt safnast þetta saman og þessi niðurstaða var óumflýjanleg að mínu mati,“ sagði Redknapp.

Það má hlusta á viðtalið við hann hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×