Það vakti heimsathygli fyrir fjórum árum þegar Norðmenn tilkynntu að þeir áformuðu að grafa jarðgöng fyrir skipaumferð, þau fyrstu í heiminum, við Stað í Vestur-Noregi. Til að kanna hvernig yrði að sigla í gegn var smíðaður sérstakur siglingahermir til að gefa skipstjórum færi á að reyna sig við göngin.

En í sumar kom babb í bátinn, skýrsla sem sögð var slátra þessu 38 milljarða króna verkefni, en þar var fullyrt að göngin yrðu fjárhagslegur baggi á norska ríkinu, sem þyrfti að borga með hverju skipi sem sigldi í gegn andvirði 370 þúsund íslenskra króna næstu 40 ár. Annað áfall bættist svo við í haust þegar ráðamenn Hurtigruten lýstu því yfir að ferjur þeirra myndu ekki nota göngin.

En þá kom Kristilegi þjóðarflokkurinn til bjargar. Hann hefur nú sett það sem eitt af skilyrðum fyrir stuðningi við hægristjórn Ernu Solberg að skipagöngin verði ekki slegin af. Niðurstaðan er að göngin fá 300 milljóna framlag á næsta ári til áframhaldandi undirbúnings en án loforðs um framkvæmdir. Jafnframt fylgir sú krafa að reynt verði að lækka kostnað við göngin.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.