Skoðun

Ósannindi Samfylkingarinnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir skrifar
Undanfarna daga hafa þingmenn Samfylkingarinnar farið mikinn í umræðum á þingi um barnabætur. Þannig hafa bæði Logi Einarsson, formaður flokksins, og Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður, fullyrt að fólk undir miðgildislaunum fái ekki barnabætur.

Þetta er nokkuð sérkennilegur málflutningur og manni gæti hætt til að álykta sem svo að þau hefðu mismælt sig og átt við fólk yfir miðgildislaunum. Sú fullyrðing hefði reyndar verið jafn röng, en tilgátan um mismælin er varla sönn, þar sem bæði Oddný og Logi notuðu sama orðalagið með viku millibili.

Þannig sagði Logi 7. desember: „Meirihlutinn leggur nú til að á árinu 2019 fái fólk undir miðgildislaunum engar barnabætur…“ og Oddný tók undir í gær þegar hún sagði: „..en fólk með undir miðgildislaunum fær engar barnabætur…“.

Ekki þarf að rýna lengi í málið til að sjá að hér fara formaður og þingflokksformaður Samfylkingarinnar með ósannindi. Það er einfaldlega rangt að fólk undir miðgildislaunum fái engar barnabætur. Það er líka rangt að fólk yfir miðgildislaunum fái engar barnabætur.

Tökum dæmi: Einstætt foreldri með tvö börn undir 7 ára aldri og 900.000 kr. í tekjur á mánuði fær 280.000 kr. í barnabætur á næsta ári. Miðgildislaun samkvæmt Hagstofunni árið 2017 voru 618.000 kr. á mánuði.

Staðreyndin er sú að á árinu 2019 hækka framlög til barnabóta um 1,7 milljarð króna, sem jafngildir 16% hækkun. Breytingarnar þýða að um 2200 manns fá þá barnabætur sem ekki fengu barnabætur á þessu ári og mest er hækkun barnabóta til lágtekjuhópa. Með þessum breytingum er verið að snúna vörn í sókn í barnabótakerfinu, nokkuð sem allir jafnaðarmenn ættu að fagna.

Það er eðlilegt að takast á um stefnur og hugmyndir inni á þingi. Það er hins vegar lágmarkskrafa að háttvirtir þingmenn fari ekki með ósannindi í umræðum á þingi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×