Enski boltinn

Fyrsti leikur Tottenham á nýja vellinum ekki fyrr en í febrúar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það er komið gras á nýja völlinn
Það er komið gras á nýja völlinn vísir/getty
Biðin eftir því að Tottenham spili á sínum nýja heimavelli gæti lengst enn frekar þar sem félagið á í vandræðum með að uppfylla kröfur um öryggisprófanir.

The Times greinir frá þessu í dag, en það þarf að halda nokkra viðburði á vellinum til þess að fá öryggisvottun fyrir ensku úrvalsdeildina.

Tottenham ætlar sér að spila fyrsta heimaleikinn á nýja vellinum 13. janúar þegar Manchester United mætir í heimsókn. Komandi sunnudag býður félagið 6000 stuðningsmönum í skoðunarferð um völlinn en það er í vandræðum með að koma stærri prófunum fyrir í lok desember.

Náist öryggisvottunin ekki fyrir 13. janúar þurfa stuðningsmenn Tottenham að bíða fram í febrúar með að komast á heimaleik á nýja vellinum. Næsti heimaleikur Tottenham eftir leikinn við United er ekki fyrr en 30. janúar. Sá leikur er á miðvikudagskvöldi, daginn fyrir lokadag janúar félagsskiptagluggans og er ekki talin dagsetning sem heillar fyrir opnunarleik vallarins.

Viðureign Tottenham og Newcastle United 2. febrúar yrði því líklega fyrir valinu sem fyrsti heimaleikurinn.

Tottenham fékk útileik í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar, sem hjálpar þeim sem sjá um skipulagið til muna, en fjórða umferðin er spiluð 26. og 27. janúar og gæti heimaleikur þar valdið Tottenham frekari vandræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×