Skoðun

Hver þarf óvini með þessa vini?

Haukur Örn Birgisson skrifar
Ég starfa á skemmtilegasta vinnustað landsins og með mér starfar frábært fólk – fólk sem ég lít á sem fjölskyldu mína. Með þessu fólki starfa ég stærstan hluta dagsins, stærstan hluta vikunnar. Það er ótrúlega mikilvægt að starfa með skemmtilegu fólki, sem maður getur átt góð samskipti við. Fólki sem maður virðir og sem virðir mann á móti. Ég gæti ekki starfað á vinnustað þar sem mér líkaði ekki við samstarfsfólk mitt.

Það eru samt ekki allir svo heppnir að geta valið vinnufélaga sína. Þegar ég var ungur maður (þyki miðaldra í dag) þá hafði ég mikinn áhuga á stjórnmálum og gat vel hugsað mér að verða þingmaður þegar „ég yrði stór“. Þennan áhuga missti ég hins vegar rúmlega tvítugur að aldri og ástæðan var aðallega sú að mér fannst starfsumhverfið alls ekki aðlaðandi. Baknag í bakherbergjum var of stór þáttur starfsins, að mínu viti. Þessi skoðun mín hefur lítið breyst við að fylgjast með þingstörfum undanfarin ár. Þar saka þingmenn hver annan um óheiðarleika og spillingu, meira að segja refsiverð brot í starfi – að því er virðist, gegn betri vitund og í því skyni að koma pólitísku höggi á andstæðinga sína. Vikulega er einhver að krefjast þess að einhver annar segi af sér út af einhverju, sem yfirleitt skiptir engu máli. Nýjustu fréttir staðfesta svo loks að ætlaðir vinir reyndust óvinir í raun.

Alþingi er reyndar ekki eins og aðrir vinnustaðir. Fólkið þar á ekki að „vinna saman“ að sameiginlegum markmiðum, enda eru markmið og áherslur flokka afar ólík. Þingmenn verða samt að koma fram við aðra af virðingu. Á meðan svo er ekki þá er Alþingi vondur vinnustaður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×