Viðskipti innlent

Móðurfélag Toys R' Us á Íslandi gjaldþrota

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Top Toy rekur þrjár Toys R' Us verslanir á Íslandi.
Top Toy rekur þrjár Toys R' Us verslanir á Íslandi. Fréttablaðið/ernir
Móðurfélag leikfangaverslunarkeðjunnar Toys R' Us á Íslandi, hið danska Top Toy, hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Félagið hefur síðastliðinn mánuð unnið að endurskipulagningu með það fyrir augum að bjarga rekstrinum. Skandinavískir miðlar greina hins vegar frá því í dag að sú vinna hafi ekki borið jákvæðan ávöxt. Léleg jólaverslun hafi endanlega riðið fyrirtækinu að fullu.

Sigurður Þorgeir Jónasson, verslunarstjóri Toys R' Us á Smáratorgi, sagðist vera nýbúinn að heyra tíðindin þegar blaðamaður náði tali af honum. Hann segir starfsmenn Toys R' Us á Íslandi ekki hafa borist neinar nánari fregnir um framtíð verslananna hér á landi. „Við vitum ekkert hvernig framhaldið verður,“ segir Sigurður og bætir við að því hafi ekki enn verið tekin formleg ákvörðun um að loka þremur verslunum Toys R' Us hér á landi.

Norskir miðlar áætla þó að þar í landi verði öllum verslunum Toys R' Us lokað á næstunni og 330 starfsmenn keðjunnar í Noregi muni missa vinnuna. Reynt verði þó að halda einhverjum verslunum opnum til áramóta, svo að viðskiptavinir geti skipt jólagjöfum.

Rekstrarörðugleikar Toys R' Us hafa ratað reglulega í fréttirnar á síðustu mánuðum. Í upphafi mánaðar kom fram að Top Toy hefði í huggju að loka hundrað verslunum á Norðurlöndum og í Þýskalandi. Fyrr á árinu var auk þess greint frá því að öllum verslunum Toys R' Us í Bretlandi og Bandaríkjunum yrði lokað.

Gríðarlegar skuldir eru sagðar hafa sligað fyrirtækið, auk þess sem Toys R' Us hefur átt í vök að verjast með aukinni samkeppni frá smásmölurisum á borð við Amazon, Walmart og Target. Sem fyrr segir eru þrjár verslanir reknar undir merkjum Toys R' Us hér á landi - í Kringlunni, Smáratorgi og á Akureyri.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×