Skoðun

Uppgjör

María Bjarnadóttir skrifar
Nú stendur yfir árlegt uppgjörstímabil mannfólksins. Dagarnir eftir jólasvallið og fyrir janúarföstuna eru að mörgu leyti tilvaldir til að gera upp afrek og ósigra ársins sem er að líða. Það gerir mikið fyrir ferlið að það er þakklæti og melankólía sem fylgir því að vera svona södd marga daga í röð. Samfélagslega viðurkenningin á að vera í náttfötum heilu og hálfu dagana, borða súkkulaði í öll mál og upphafning lesturs sem verkefnis, er svo frábær lýsing til að horfa í baksýnisspegilinn með.

Fyrir suma er þetta frekar upprifjun en uppgjör. Upprifjun á markmiðum sem sett voru fyrir 12 mánuðum og hætt var að vinna í fyrir 11 mánuðum því að lífið tekur stundum svo mikinn tíma að það er ekki hægt að koma fyrir hreyfingunni/sjálfsræktinni/umhverfisverndinni sem átti að iðka af auknum krafti á nýju ári. Sem betur fer má endurnýta mörg áramótaheit. 2019 verður til dæmis árið sem ég fer í jóga í hverri viku þó það hafi líka verið planið og ekki tekist 2018. Sumt er alveg þess virði að reyna aftur. Jafnvel þó það hafi líka klúðrast 2017.

Margir ákveða að virkja mánaðarlegu stuðningsgreiðslurnar til íþróttastöðva. Það er fyrirséð að upp úr 2. janúar fari hlaupabrettin að fyllast af fólki sem horfist ekki í augu við að það sé frekar tímabært að segja upp áskriftinni og prófa eitthvað annað fyrir peninginn. Ég sendi þessu fólki stuðningskveðjur, enda var ég um árabil ein af þeim. Um leið óska ég þess að fólkið sem þarf ekki árlegt uppgjör til að mæta í ræktina jafnt og þétt yfir árið geri það að áramótaheiti að vera notalegt við átaksfólkið í janúar þó það setji lóðin ekki á hárréttan stað eftir notkun. Þau verða hvort eð er farin í febrúar og koma ekki aftur fyrr en að ári.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×