Erlent

Fjarlægðu tvö æxli úr lunga Ginsburg

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ginsburg er elsti sitjandi dómarinn við Hæstarétt Bandaríkjanna
Ginsburg er elsti sitjandi dómarinn við Hæstarétt Bandaríkjanna AP/J. Scott Applewhite
Tvö illkynja æxli voru fjarlægð úr vinstra lunga hæstaréttardómarans Ruth Bader Ginsburg á dögunum. Þetta er í þriðja sinn sem krabbamein gerir vart um sig hjá Ginsburg, sem hefur verið einn dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna síðan árið 1993.

Í tilkynningu frá réttinum segir að hin 85 ára gamla Ginsburg hafi farið í aðgerð í dag og að hún muni dvelja á sjúkrahúsi í nokkra daga.

Læknar fundu engin merki um að meinið hafi dreift sér og þarf Ginsburg ekki að undirgangast frekari meðferð að svo stöddu.

Æxlin fundust við læknisskoðun eftir að Ginsburg brákaði rifbein eftir að hún datt í nóvember.

Ginsburg er elsti sitjandi dómarinn við Hæstarétt Bandaríkjanna og leiðir frjálslynda arm réttarins. Heilsufar hennar hefur valdið nokkrum áhyggjum upp á síðkastið vegna þess að ef hún leggst í helgan stein félli það í hlut Donalds Trump Bandaríkjaforseta að skipa annan dómara, en hann hefur þegar skipað tvo nýja dómara, þá Neil Gorsuch og Brett Kavanaugh.

Síðasti forseti Bandaríkjanna sem skipaði fleiri en tvo dómara í sinni forsetatíð var Ronald Reagan sem tilnefndi þrjá. Þar á meðal var Sandra Day O‘Connor sem var jafnframt fyrsta konan til að taka sæti í Hæstarétti.

Ginsburg nýtur mikilla vinsælda meðal almennings í Bandaríkjunum fyrir skelegga framkomu og er orðin einskonar tákngervingu réttlætis og andspyrnu. Til að mynda er kvikmynd byggð á ævi hennar væntanleg í kvikmyndahús en hún fjallar um baráttu Ginsburg fyrir jafnrétti kynjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×