Vaðlaheiðargöng eru nú opin og verða gjaldfrjáls til 2. janúar 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Formleg opnun ganganna verður 12. janúar næstkomandi. Vegggjöld verða innheimt rafrænt en ekki í gjaldskýli.
Gjaldtakan verður þrenns konar.
Í fyrsta lagi í gegnum aðganga á veggjald.is. Stofnaður er aðgangur og þar settar inn greiðslukortaupplýsingar og þau bílnúmer sem óskað er eftir að greiða fyrir. Við hverja ferð í gegnum göngin skuldfærist veggjaldið á viðkomandi greiðslukort. Hægt er að kaupa fyrirframgreiddar 10, 40 eða 100 ferðir á afsláttarkjörum. Því fleiri ferðir sem keyptar eru þeim mun lægri upphæð greiðist fyrir hverja ferð.
Stök ferð fólkbíls um göngin mun kosta 1500 krónur. 10 ferðir kosta 12.500 krónur eða 1250 krónur ferðin. 40 ferðir kosta 36.000 krónur eða 900 krónur ferðin. 100 ferðir kosta 70.000 krónur eða 700 krónur ferðin.
Í öðru lagi er hægt að kaupa stakar ferðir á veggjald.is eða tunnel.is eða með appi allt að þremur tímum áður eða eftir að ekið er í gegnum göngin.
Í þriðja lagi, ef ferð er ekki greidd innan þriggja tíma frá því að ekið er í gegnum göngin verður veggjaldið innheimt af skráðum umráðamanni ökutækis að viðbættu þúsund króna álagi.
Upphaflega voru verklok áætluð árið 2016. Verkið hefur hins vegar dregist á langinn, ekki síst eftir að stór heitavatnsæð opnaðist í þeim árið 2014. Alþingi samþykkti upphaflega ríkislán fyrir framkvæmdina upp á 8,7 milljarða króna árið 2012. Lánið var síðar hækkað í 14,4 milljarða í fyrra.
Opnað fyrir umferð í Vaðlaheiðargöngum
Tengdar fréttir
Vaðlaheiðargöng opnuð 12. janúar og ferðin kostar 1500 krónur
Formleg opnun Vaðlaheiðarganga verður 12. janúar næstkomandi. Vegggjöld verða innheimt rafrænt en ekki í gjaldskýli.
Göngin borgi sig upp á 28 árum
Vaðlaheiðargöng verða formlega opnuð þann 12. janúar næstkomandi, rúmlega tveimur árum á eftir áætlun. Vonir standa til að hægt verði að hleypa umferð í gegn fyrir áramót.