Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá formönnum félaganna, þeim Ragnari Þór Ingólfssyni, Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Vilhjálmi Birgissyni.
Í yfirlýsingunni, sem sjá má í heild sinni hér, segir að formennirnir telji sögulegt tækifæri fólgið í breiðri samstöðu stéttarfélaga almenns verkafólks og verslunarfólk um krónutöluhækkanir og hækkun lægstu launa.
„Við undirrituð teljum að viðræður síðustu vikna við Samtök atvinnulífsins hafi verið árangurslausar og afstöðu stjórnvalda skýra vísbendingu um að þau hyggist ekkert gera til að liðka fyrir viðræðum,“ segir í yfirlýsingunni.
Það að vísa deilunni til sáttasemjara færir félögin nær aðgerðum, til að mynda verkföllum því áður en hægt er að boða til verkfalla eða annarra aðgerða þarf að vera búið að halda fundi hjá sáttasemjara.
Áherslumunur
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að áherslumunur hafi verið á milli þessarra þriggja félaga og annarra innan Starfsgreinasambandsins.„Reyndar höfum við Sólveig Anna hjá Eflingu lagt mikla áherslu á að mynda breiða samstöðu með VR íþessari kjaradeilu. Vegna þess að ef VR hefði til dæmis komið með okkur í Starfsgreinasambandinu hefðum við verið með 75 prósent allra félagsmanna innan Alþýðusambandsins á bakvið okkur,“ sagði Vilhjálmur.
Þá hafi þessi félög viljað vísa deilunni við samtök atvinnulífsins strax til ríkissáttasemjara vegna þess að lítið hafi gerst í viðræðum við Samtök atvinnulífsins hingað til og stjórnvöld ekki tekið við sér varðandi kröfur sem snúi að þeim. Félögin berjist fyrir því að lágmarkslaun nái þeim framfærsluviðmiðum sem velferðarráðuneytið hafi gefið út. Þetta hafi verið eitt af aðal kosningamálum Vinstri grænna, flokks forsætisráðherrans.
„Okkar kröfugerð byggist að stórum hluta áþessu atriði. Og verkalýðshreyfing sem hefur ekki metnaðí sér til þess að leggja fram kröfugerð sem grundvallast áþví að fólk geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar á að finna sér eitthvað annað að gera,“ sagði Vilhjálmur Birgisson.