Enski boltinn

Woodward verður ekki rekinn svo lengi sem Glazer fjölskyldan á United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ed Woodward og Avram Glazer
Ed Woodward og Avram Glazer vísir/getty
Svo lengi sem Glazer fjölskyldan á Manchester United verður Ed Woodward ekki rekinn úr starfi. Þetta segir einn helsti íþróttablaðamaður The Times Martyn Ziegler.

Það sem af er þessu tímabili hefur mikið verið rætt um ástandið á Old Trafford. Jose Mourinho varð neikvæðari og neikvæðari með hverjum blaðamannafundinum, einn daginn bárust fréttir af því að hann gæti eytt eins og hann vildi í janúar og þann næsta mátti hann ekki kaupa neitt.

Frammistaðan á vellinum varð til þess að það hitnaði og hitnaði undir sæti Mourinho og hann var svo á endanum rekinn í vikunni. En umræðan, bæði í fjölmiðlum og úti í samfélaginu, snérist einnig að framkvæmdastjóranum Woodward. Vandamál United myndu ekki leysast með því að reka stjórann, það þyrfti að gera breytingar hærra uppi.

Ziegler skrifar pistil í dag þar sem hann fer yfir samband Woodward og Glazer fjölskyldunnar.

Glazer fjölskyldan keypti United fyrir þrettán árum síðan og var Woodward lykilmaður í þeim samningaviðræðum. Bandaríska fjölskyldan setti 170 milljónir punda af sínu eigin fé í kaupin, restin var fengin með lánum.

Jose Mourinho, Ed Woodward og Sir Alex Ferguson
Í dag á Glazer fjölskyldan 80 prósenta hlut í félagi sem er talið 3 milljarða punda virði.

Woodward hefur frá fyrsta degi eftir kaupin séð um peningahliðina á félaginu. Undir hans stjórn er viðskiptamódelið hjá United orðið eitt það besta, ef ekki allra besta, í heimi og hafa mörg önnur félög mótað sig eftir módeli United.

Woodward kann að búa til peninga, hann talar við Glazer fjölskylduna á hverjum degi og hann er ekki að fara neitt.

Stuðningsmennirnir vilja hins vegar ekki styðja fjárfestingafyrirtæki heldur fótboltafélag. Og þess vegna þarf United að ráða yfirmann knattspyrnumála eða svipaða stöðu til þess að vera milliliður á milli Woodward og knattspyrnustjórans.

Mourinho vildi ekki fá slíkt starf inn og það var enn einn þráðurinn sem slitnaði á milli Portúgalans og Woodward.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×