Enski boltinn

Segir að Liverpool liðið geti farið taplaust í gegnum tímabilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dejan Lovren og Jürgen Klopp fagna sigri á Manchester United.
Dejan Lovren og Jürgen Klopp fagna sigri á Manchester United. Vísir/Getty
Króatíski miðvörðurinn Dejan Lovren verður mjög mikilvægur fyrir Liverpool næstu vikurnar eftir að Liverpool missti tvo sterka miðverði í meiðsli á einni viku. Joël Matip og Joe Gomez missa báðir af næstu leikjum liðsins.

Dejan Lovren var í miðri vörninni í 3-1 sigrinum á Manchester United um síðustu helgi og hann hefur fulla trú að Liverpool geti farið taplaust í gegnum tímabilið og leikið þar sem eftir afrek Arsenal frá 2003 til 2004.

„Vonandi verðum við taplausir til loka tímabilsins. Þessa vegna kom ég til Liverpool. Arsenal gat þetta og af hverju ekki við líka?,“ sagði Dejan Lovren í viðtali við BBC.





Liverpool hefur ekki orðið enskur meistari í að verða 29 ár en liðið er nú á toppnum með einu stigi meira en ríkjandi meistarar í Manchester City.

„Auðvitað verður þetta erfitt og margar áskoranir bíða okkar. Það er það sem við viljum. Við vitum að við getum þetta alveg,“ sagði Lovren sem tapaði tveimur stórum úrslitaleikjum á þessu ári, fyrst úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Liverpool og svo úrslitaleik HM með króatíska landsliðinu.

„Ég er ekki viss um að City hafi einhverja veikleika. Þeir unnu titilinn með 19 stiga mun á síðasta tímabili. Þeir töpuðu nokkrum leikjum í fyrra en unnu samt með svona miklum mun,“ sagði Lovren.

„Þetta er keppni og það viljum við. Við ætlum samt ekki að vera horfa á hverjir eru fyrir ofan eða neðan okkur í töflunni. Við ætlum bara að hugsa um okkur sjálfa,“ sagði Lovren.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×