Enski boltinn

Solskjær hvetur De Gea og Martial til að skrifa undir langtímasamning

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær veit hvað það er að vera goðsögn á Old Trafford.
Ole Gunnar Solskjær veit hvað það er að vera goðsögn á Old Trafford. Vísir/Getty
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Man Utd, hyggst beita sér fyrir því að David De Gea og Anthony Martial skrifi undir langtímasamninga við enska stórveldið.

Félagið nýtti sér ákvæði í samningum beggja leikmanna og framlengdi samninga þeirra til ársins 2020 en Man Utd vill fá leikmennina til að skrifa undir langtímasamning og hafa viðræður þess efnis átt sér stað á undanförnum vikum.

Solskjær mun ræða við De Gea og Martial og bendir Norðmaðurinn á að það séu ekki margir staðir í fótboltanum betri til að vera á en hjá Man Utd.

„Ég veit að félagið vill framlengja við þá því þetta eru leikmenn í hæsta klassa. Þetta er undir leikmönnunum komið en þegar þú ert hjá Man Utd er grasið sjaldnast grænna hinumegin. Þú ert á besta stað sem mögulegt er. Þetta er stærsta félag heims,“ segir Solskjær.

Solskjær vonast til að leikmennirnir sjái tækifæri í að komast í guðatölu á Old Trafford en það þekkir Solskjær sjálfur vel eins og sést hefur á þeim móttökum sem hann fær frá stuðningsmönnum félagsins.

„Ég vona að ég geti hjálpað þeim og sýnt þeim fram á afhverju þeir ættu að vera áfram hjá þessu félagi. Þegar þú ert fastamaður hjá Manchester United tel ég að þú ættir að nýta það tækifæri til að skrá þig á spjöld sögunnar hjá félaginu,“ segir Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×