Fréttablaðið sagði frá framtaki Jónu Sigríðar og vinkvenna hennar í byrjun nóvember í fyrra og rakti lífshlaup Viggu gömlu sem ólst upp við einelti og jafnvel ofbeldi á heimili sínu í Mýrdal og lagðist tíu ára gömul í flakk.
Vigga hvílir í ómerktri gröf í Skeiðflatarkirkjugarði í Mýrdalshreppi. Úr því vildi Jóna Sigríður bæta og nú hefur það tekist. „Steinninn kemur mjög vel út og fellur vel inn í allt. Þetta er allt mjög lágstemmt,“ segir hún.
Þegar Fréttablaðið sagði frá málinu í fyrrahaust gáfu að minnsta kosti þrjár steinsmiðjur sig fram og sögðust vilja gefa stein á leiðið. Fyrir valinu varð gabbrósteinn frá Hornafirði sem S. Helgason lagði til.

„Þegar þetta kom í Fréttablaðinu þá stoppaði ekki síminn og það streymdu peningar inn á reikninginn. Það var hægt að gera þetta veglegt og svolítið í anda Viggu. Ég fékk glerlistakonuna Sigrúnu Einarsdóttur, sem á fyrirtækið Gler í Bergvík, til að gera fyrir mig gler til að setja í steininn,“ segir Jóna Sigríður. Um sé að ræða fjögur glerlistaverk sem séu greypt inn í steinninn.
„Ég fékk strax þessa hugmynd að setja gler í steininn vegna þess að Vigga skreytti sig með alls konar glingri og var mjög litaglöð. Þetta eru tölur – hún skreytti sig með tölum sem urðu á vegi hennar,“ útskýrir Jóna Sigríður.
Vígsluathöfnin fer fram klukkan 14.00 næsta laugardag, eða á sama tíma og Ísland leikur við Argentínu í fyrsta leik sínum á HM í Rússlandi. Jóna Sigríður segir að sér hafi verið bent á að þetta kunni að draga úr aðsókn.
„En það þurfti að smella svo mörgum þáttum saman að við bara gátum ekki breytt þessu – því miður,“ útskýrir Jóna Sigríður. „Sóknarnefndin verður þarna örugglega og vonandi fólk úr sveitinni – og allir sem studdu málið og styrktu okkur; Mýrdælingar og Eyfellingar og brottflutt fólk sem hafði samband við mig og gaf í söfnunina. Ég veit að þetta er ekki alveg nógu góður dagur en vona innlega að það geti komið.“