Innlent

Ekki grunur um neitt saknæmt í eldsvoðunum í nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Íbúðin þar sem eldurinn kom upp.
Íbúðin þar sem eldurinn kom upp. Vísir/Ernir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn á eldsvoðunum tveimur sem kviknuðu í nótt, annars vegar í Bláhömrum 2 í Grafarvogi og hins vegar á Reykjabraut í Mosfellsbæ.

Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að tæknideild lögreglunnar sé búin að fara bæði á vettvang í Grafarvogi og Mosfellsbæ til rannsóknar en ótímabært sé að gefa eitthvað út um eldsupptök þar sem rannsóknum lögreglu sé ekki lokið.

Á þessari stundu sé þó ekkert sem bendi til þess að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað, hvorki í Grafarvogi né í Mosfellsbæ.

Í Grafarvogi kom upp eldur í íbúð á næstefstu hæð hússins. Íbúinn sem býr í íbúðinni þar sem eldurinn kom upp var fluttur í lífshættu á Landspítalann og er enn á gjörgæslu.

Eldsins varð vart um klukkan hálf þrjú og logaði mikill eldur í íbúðinni, þegar slökkvilið kom á vettvang. Reykkafarar fundu húsráðandann meðvitundarlausan og var hann fluttur í skyndingu á sjúkrahús.

Sex aðrir íbúar hússins voru fluttir á slysadeild til rannsókna vegna gruns um reykeitrun, en engan þeirra mun hafa sakað alvarlega.

Í Mosfellsbæ kviknaði í litlu timburhúsi. Fimm manna fjölskylda komst með naumindum út um glugga á húsinu en þau urðu eldsins vör vegna reykskynjara. Voru þau flutt á slysadeild með reykeitrun og minniháttar meiðsl.


Tengdar fréttir

Reyndi að vekja nágranna sína

Maðurinn, sem liggur í lífshættu á Landspítalnum eftir að eldur kviknaði í íbúð hans í Grafarvogi í nótt, reyndi að vekja nágranna sína áður en hann féll í yfirlið á gangi fjölbýlishússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×