Erlent

Húsleit í frönsku klaustri vegna leitar að grunuðum fjöldamorðingja

Atli Ísleifsson skrifar
Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur Xavier Dupont de Ligonnès árið 2011
Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur Xavier Dupont de Ligonnès árið 2011 Vísir/AFP
Lögregla í Frakklandi hefur gert húsleit í klaustri í Roquebrune-sur-Argens vegna leitar að hinum fimmtuga Xavier Dupont de Ligonnès sem grunaður er um að hafa myrt fjölskyldu sína árið 2011.

Frá þessu greinir Le Figaro og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan lögreglunnar. Mikið hefur verið fjallað um málið í frönskum fjölmiðlum síðustu árin.

Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur Dupont de Ligonnès árið 2011 eftir að eiginkona hans og fjögur börn fundust skotin til bana og grafin í garði fjölskyldunnar í úthverfi Nantes.

Ekkert hefur spurst til fjölskylduföðursins síðan. Blaðið Ouest-France greinir frá því að nokkrir sjónarvottar hafi tilkynnt lögreglu um að þeir hafa séð manninn íklæddum munkakufli í umræddu klaustri sem er að finna við Miðjarðarhafsströnd Frakklands, milli Nice og Marseille.

Móðirin Agnès Dupont de Ligonnès var 48 ára þegar hún var myrt og börnin Arthur, Thomas, Anne og Benoît tuttugu, átján, sextán og þrettán ára.

Uppfært:

Franskir fjölmiðlar segja frá því að hinn grunaði hafi ekki fundist í klaustrinu.

Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×