Erlent

Rússneskur orrustuflugmaður sagður hafa sprengt sig í loft upp

Kjartan Kjartansson skrifar
Brak sem sagt er vera úr rússnesku Sukhoi-25 orrustuþotunni í Idlib í Sýrlandi. Þetta er í fyrsta skipti sem rússnesk flugvél er skotin niður yfir Sýrlandi.
Brak sem sagt er vera úr rússnesku Sukhoi-25 orrustuþotunni í Idlib í Sýrlandi. Þetta er í fyrsta skipti sem rússnesk flugvél er skotin niður yfir Sýrlandi. Vísir/EPA
Flugmaður rússneskrar orrustuþotu hefur verið hylltur sem hetja í heimalandinu en fjölmiðlar hafa greint frá því að hann hafi sprengt sig í loft upp með handsprengju frekar en að falla í hendur sýrlenskra hryðjuverkamanna sem skutu þotu hans niður.

Þotan var skotin niður yfir Idlib-héraði sem er á valdi uppreisnarmanna. Roman Filipov lifði af en féll í bardaga á jörðu niðri, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Hryðjuverkasamtök sem tengdust áður al-Qaeda segjast hafa skotið þotuna niður.

Rússneskir fjölmiðlar segja að Filipov hafi tekið pinna úr handsprengju frekar en að leyfa uppreisnarmönnunum að ná sér. Hinstu orð hans eiga að hafa verið: „Þetta er fyrir gaurana“. TV Zvezda, sjónvarpsstöð sem rússneska varnarmálaráðuneytið stjórnar, segir að Filipov hafi verið veitt heiðursorða að honum látnum.

BBC segist ekki geta staðfest lokaorð flugmannsins eða hvernig upplýsingar um þau hafi fengist. Sýrlenska mannréttindavaktin í Bretlandi hefur sagt að að uppreisnarmennirnir hafi gripið flugmanninn og drepið hann.

Rússneskar orrustuþotur hafa tekið þátt í herferð sýrlenskra stjórnvalda gegn uppreisnarmönnum í Idlib frá því í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×