Fótbolti

Alfreð var að skora í þriðja landsleiknum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu.
Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Alfreð Finnbogason skoraði fyrsta mark Íslands á HM þegar hann jafnaði metin á móti Argentínu á Spartak-leikvanginum í Moskvu.

Alfreð þefaði upp marktækifærið og sendi boltann í markið við gríðarlegan fögnuð íslensku stuðningsmannanna. Íslenska landsliðið var þá búið að vera undir í fjórar mínútur þegar Alfreð skoraði á 23. mínútu.

Þetta var fjórtánda mark Alfreðs fyrir íslenska landsliðið en hann var líka að skora í þriðja landsleiknum í röð. Alfreð skoraði líka í tveimur síðustu undirbúningsleikjum Íslands á móti Noregi og Gana.

Alfreð þakkaði fyrir traustið að fá að byrja leikinn en þetta er í fyrsta sinn sem hann byrjar inn leik á stórmóti. Alfreð var á bekknum í öllum leikjum Íslands á EM í Frakklandi fyrir utan þennan eina þar sem hann var í leikbanni.

Alfreð opnaði einnig markareikning íslenska landsliðsins í undankeppninni en hann skoraði mark Íslands í fyrsta leiknum á móti Úkraínu. Alfreð skoraði alls þrjú mörk í undankeppninni.

Alfreð sendir boltann í mark Argentínumanna.Vísir/Getty
Boltinn komið í markið.Vísir/Getty
Alfreð fagnar.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×