Einstaklingum sem eru á biðlista eftir því að komast í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi hefur fjölgað um 90 prósent frá árinu 2013 og tæp 30 prósent á síðustu fjórum til fimm mánuðum. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að fjárframlög ríkisins til starfseminnar hafi verið aukin úr 658 milljónum árið 2012 í 914 milljónir. Fjölgun á mjög alvarlegum tilfellum fíknivanda er sögð höfuðástæða þess að minna er kallað inn til meðferðar af biðlistum og biðtíminn hefur lengst.
Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Páls Jónssonar, þingmanns Miðflokksins, í gær.
Sigurður vildi vita hvernig ráðherra hygðist bregðast við löngum biðlistum á Vogi, til að draga úr vanda þeirra sem þurfa á meðferð að halda, ekki síst útigangsfólks.
Fram kemur í svarinu að í janúar 2018 voru alls 570 einstaklingar á biðlista eftir innlögn á sjúkrahúsið en þeir voru 445 í ágúst 2017. Til samanburðar þá gerðist það í fyrsta sinn í sögu sjúkrahússins árið 2013 að einstaklingar á biðlista urðu fleiri en 300.
Ráðherra boðar í svari sínu að vinnu við heildarstefnumótun fyrir meðferð við áfengis- og vímuefnavanda verði hraðað. Biðlistarnir kalla á nánari skoðun og greiningu svo unnt sé að skipuleggja raunhæfar aðgerðir til úrbóta.
Innlent