Lífið

Hugvitsamur vörubílstjóri þóttist vera stuðningsmaður íslenska landsliðsins og slapp við sekt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögreglumaðurinn virtist hafa nokkuð gaman af blekkingarleik mannsins.
Lögreglumaðurinn virtist hafa nokkuð gaman af blekkingarleik mannsins. Vísir
Hann var hugvitsamur rússneski vörubílstjórinn sem komst hjá því að greiða umferðarsekt í grennd við Rostov-við-Don á dögunum með því að þykjast vera stuðningsmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Fjallað er um málið á vef rússneska vikublaðsins Moscow Times þar sem myndband af samskiptum vörubílstjórans og lögreglumannsins er birt.

Í frétt Moscow Times segir að fregnir hafi borist af því að lögreglan hafi ekki tekið jafn hart á minniháttar brotum stuðningsmanna þeirra liða sem keppa á HM líkt og venja er gagnvart rússneskum ríkisborgurum.

Svo virðist sem að vörubílstjórinn hafi haft þetta í huga þegar hann var stöðvaður af lögreglu.

„Ég er frá Íslandi, þú veist, stuðningsmannaklúbburinn,“ heyrist vörubílstjórinn segja á ensku með þykkum rússneskum hreim.

Athygli vekur að þrátt fyrir að segjast ekki skilja rússnesku gat vörubílstjórinn svarað spurningum lögreglumannsins sem talaði rússnesku.

Myndbandinu líkur með því að lögreglumaðurinn fer að brosa og virtist hann hafa gaman af tilraun vörubílstjórans til þess að gabba sig. Endar hann á því að sleppa vörubílstjóranum við sekt.

Vörubílstjórinn kvaddi svo lögreglumanninn á lýtalausri rússnesku áður en hann keyrði í burtu, skellihlæjandi.

Sjá myndband af samskiptum mannanna hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×