Áætlunin gerir ráð fyrir að sjö nýjum ungbarnadeildum verði komið upp næsta haust auk þess sem fimm til sex nýir leikskólar verði byggðir á næstu árum. Þá verður gripið til margvíslegra aðgerða til að bæta aðstöðu á leikskólum og vinnuumhverfi leikskólakennara og annars starfsfólks, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Aðgerðirnar eru sundurliðaðar eftir borgarhlutum og taka mið af áformum um þéttingu byggðar, ný hverfi og spám sem fyrir liggja um væntanlegan barnafjölda í hverfunum.
Til að hægt sé að bjóða öllum 12 mánaða börnum og eldri leikskólaþjónustu á vegum borgarinnar er gert ráð fyrir að fjölga þurfi plássum um 750-800 á næstu sex árum.

Á árunum 2022-2026 er síðan gert ráð fyrir að nýir leikskólar muni rísa í nýjum hverfum borgarinnar þar sem þörf krefur; einkum Bryggjuhverfi, Ártúnshöfða, Skerjafirði og Vogabyggð III-IV.
Síðastliðið haust voru teknar í notkun sjö sérhæfðar ungbarnadeildir við fjóra leikskóla í borginni. Þær eru í Breiðholti, Árbæ, Laugardal og Miðborg og hafa sérstaka aðstöðu og leikrými sem hentar börnum á öðru aldursári.
Næsta haust verður ráðist í næsta áfanga með opnun sjö ungbarnadeilda til viðbótar við leikskóla í Vesturbæ, Grafarvogi, Grafarholti og Hlíðahverfi. Þar með verða ungbarnadeildir starfandi í öllum borgarhlutum.
Þessum ungbarnadeildum verður heimilt að hefja inntöku barna yngri en 18 mánaða og er miðað við að í haust hefjist inntaka barna á ungbarnadeildir sem fædd eru í maí 2017, þ.e. barna sem verða 16 mánaða og eldri í september.