„Við erum tríó sem er búsett í Hollandi. Ég er eini Íslendingurinn í bandinu – en með mér er strákur frá Spáni og stelpa frá Hollandi. Við erum á tónleikaferðalagi um Ísland og samhliða tónleikaferðalaginu erum við með verkefni sem gengur út á það að spila á stöðum þar sem fólk hefur minni aðgang að lifandi tónlist. Í gær spiluðum við í Kvennaathvarfinu og í dag í Vin, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir. Við erum svo að fara að spila á dvalarheimilinu í Stykkishólmi og á Seyðisfirði. Þarna bjóðum við upp á ókeypis tónleika. Til að fjármagna þetta verkefni erum við með hópsöfnun í gangi og þessir tónleikar í Hannesarholti eru styrktartónleikar fyrir verkefnið – allur ágóðinn fer í það,“ segir Anna Vala Ólafsdóttir, sellóleikari og söngkona tríósins Tourlou sem nú ferðast um Ísland í fyrsta sinn. Tourlou er skipað auk Önnu, þeim David Alameda Márquez og Mayumi Malotaux.
Tourlou spila í Hannesarholti í kvöld og eins og Anna sagði verða það styrktartónleikar fyrir verkefni sveitarinnar Live Music Beyond Borders sem gengur út á að bjóða upp á ókeypis tónleika fyrir fólk sem af einhverjum ástæðum hefur annars ekki tök á að sækja tónleika – hvort sem er af fjárhagslegum, heilsufarslegum eða öðrum ástæðum. Tríóið spilar þjóðlagatónlist alls staðar að úr Evrópu í eigin útsetningum og á efnisskránni kennir ýmissa grasa, allt frá melankólískum ballöðum til líflegrar danstónlistar.
Eins og áður sagði er þetta í fyrsta sinn sem tríóið kemur til landsins og þau nýta ferðina vel – þau stefna á hringferð og að taka tónleika nánast í hverju plássi.
„Við erum að fara hringinn – við komum í Norrænu og fórum suður fyrir. Eftir Reykjavík stefnum við norður, á Þjóðlagahátíðina á Siglufirði meðal annars, við spilum líka á Ísafirði og Snæfellsnesi. Við endum ferðina í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði. Í millitíðinni spilum við svo á Akureyri og Dalvík og fleiri stöðum.“ Tónleikarnir hefjast klukkan átta í Hannesarholti. Fyrir þá sem ekki komast á tónleikana er hægt að styrkja verkefnið í gegnum heimasíðu Tourlou, tourloumusic.com, en þar er einnig hægt að hlusta á tónlist tríósins.