Vigur var auglýstur til sölu í morgun og segir Davíð Ólafsson, fasteignasali hjá Borg, að fyrirspurnir hafi þegar borist. Eyjan hefur verið í eigu bændanna Salvars Baldurssonar og Hugrúnar Magnúsdóttur frá árinu 1994. Þau ætla að selja eyjuna í heild sinni með öllum húsakosti og hlunnindum.
Eyjan er um 45 hektarar með um tíu hekturum ræktaðs lands. Húsakosturinn er um 700 fermetrar, þar á meðal rúmlega 200 fermetra íbúðarhús og veitingasalur sem rýmir áttatíu gesti.

Hluti af Vigur er friðland en þar er líflegt fuglalíf og æðarvarp. Þrátt fyrir það og friðuð húsin segir Davíð að engar kvaðir verði á kaupanda eyjunnar.
„Það má byggja þarna og það má bæta húsakost,“ segir hann.
Brunabótamat á húsakostinum í Vigur en Davíð vill ekki ljóstra upp um mögulegt kaupverð á eyjunni. Óskað sé eftir tilboðum.
„Eyjan er mikils virði og gefur mikla tekjumöguleika,“ segir hann.
