Fjöldi kvenna, sem eru utan vinnumarkaðar vegna veikinda eða annarra ástæðna sem gera þær ófærar til vinnu, hefur fjórfaldast frá því á þriðja ársfjórðungi ársins 2010. Þá voru 900 konur tímabundið utan vinnumarkaðar, en á þriðja ársfjórðungi 2017 voru þær 3.800. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ASÍ um vinnumarkaðinn.
Þar kemur líka fram að frá þriðja ársfjórðungi 2016 til þriðja ársfjórðungs 2017 fjölgaði konum, sem eru veikar eða tímabundið ófærar til vinnu, úr 2.100 í 3.800 og körlum fjölgaði úr 1.300 í 2.200.

Hlutverk VIRK er að aðstoða fólk sem dottið hefur út af vinnumarkaði í kjölfar veikinda, slysa eða annarra áfalla við að endurheimta getu og hæfni til þátttöku á vinnumarkaði.
Umfang starfseminnar hefur aukist mikið á síðustu árum og í fyrra bættust 1.854 einstaklingar á skrá hjá VIRK.
Ellen Calmon, fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins, er líka með ákveðnar kenningar, sem hún tekur þó fram að séu ekki allar vísindalega sannaðar.
„Lægstu laun á vinnumarkaði eru allt of lág og konur í láglaunastörfum og þá sérstaklega í umönnunarstörfum, svo sem sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, leikskólakennarar og ófaglært starfsfólk á leikskólum, eru með allt of lág laun og það gerir það að verkum að það eru fáir bara í 100 prósent störfum. Fólk er að stunda tvö til þrjú launuð störf til að hafa ofan í sig og á. Það þarf að hækka lægstu laun og húsnæðisverð er allt of hátt.
Þetta gerir það að verkum að fólk með lægstu launin og þá sérstaklega konur eru einfaldlega að vinna frá sér heilsuna,“ segir Ellen. Hún bendir á að flestir þeir sem detta út af vinnumarkaði séu með einhvers konar geðraskanir og svo stoðkerfissjúkdóma.