Lífið

Birgit fær þýsk heiðursverðlaun

KB skrifar
Birgit skapar hárfína blöndu augnablika.
Birgit skapar hárfína blöndu augnablika. Thorsten Jander
Íslenska kvikmyndatökukonan Birgit Guðjónsdóttir hlýtur heiðursverðlaun Þýsku kvikmyndaverðlaunanna (Deutsche Kamerapreis) í ár, en þau eru veitt fyrir framúrskarandi feril viðkomandi listamanns.

Í umsögn dómnefndar segir að öll verk sem hún hefur fengist við beri merki næmis hennar og innsæis og sé sama hvort hún fáist við leiknar myndir eða heimildarmyndir fyrir sjónvarp eða bíóhús. „Töfrar hennar liggja ekki bara í því að taka fallegar myndir heldur að skapa hárfína blöndu augnablika, afstöðu, sjónarhorna og hreyfingar myndavélarinnar,“ bætir dómnefndin við.

Birgit fæddist á Íslandi árið 1962. Hún hefur á ferli sínum tekið þátt í gerð fjölmargra mynda fyrir bíó og sjónvarp. Auk þessa að sinna kvikmyndagerð hefur hún um árabil kennt við kvikmyndaháskóla í Baden-Württemberg og Babelsberg.

Hún er félagi í Þýsku og Evrópsku kvikmyndaakademíunni og átti frumkvæði að stofnun samtaka þýskumælandi kvikmyndatökukvenna. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Köln 7. júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.