Dómsmálanefnd öldungadeildar bandaríska þingsins fundar í dag. Á dagskrá er að yfirheyra Brett Kavanaugh, sem tilnefndur hefur verið til hæstaréttar, og sálfræðiprófessorinn Christine Blasey Ford um þær ásakanir hennar að Kavanaugh hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi.
Auk Ford hefur Deborah Ramirez sakað Kavanaugh um að brjóta á sér. Lögmaður hennar sagði í gær að hún væri tilbúin til þess að tjá sig um málið við nefndina en nefndin hefði einfaldlega ekki haft samband við hana.
Þriðja konan steig fram í gær. Sú heitir Julie Swetnick og undirritaði eiðfesta yfirlýsingu þar sem hún hélt því fram að Kavanaugh og vinir hans hefðu hópnauðgað henni. „Á meðan á því stóð var ég aflvana og gat ekki barist gegn strákunum sem voru að nauðga mér. Ég held mér hafi verið byrluð ólyfjan,“ sagði í yfirlýsingu Swetnick sem Michael Avenatti, lögmaður hennar sem einnig er lögmaður klámstjörnunnar Stormy Daniels, birti á Twitter.
Orðrómur hafði verið uppi á netinu um að skjólstæðingur Avenattis, sem hann tilkynnti um að myndi stíga fram fyrir nokkru, væri ekki til. Sá orðrómur fór á kreik eftir að nettröll sagði í innleggi á stjórnmálaspjallborði 4chan að hann hefði gabbað lögmanninn. Avenatti hafnaði þeirri frásögn og sagði hana fáránlega.
Kavanaugh tjáði sig um yfirlýsingu Swetnick og sagði hana fjarstæðukennda. Líkti henni við eitthvað úr sjónvarpsþáttunum The Twilight Zone. „Ég hef ekki hugmynd um hver þessi kona er. Þetta átti sér aldrei stað,“ sagði í yfirlýsingu Kavanaughs.
