Bíó og sjónvarp

Stikla úr verðlaunamynd Ísoldar Uggadóttur frumsýnd

Þórdís Valsdóttir skrifar
Með aðalhlutverk í myndinni fara Kristín Þóra Haraldsdóttir, Babetida Sadjo og Patrik Nökkvi Pétursson.
Með aðalhlutverk í myndinni fara Kristín Þóra Haraldsdóttir, Babetida Sadjo og Patrik Nökkvi Pétursson. ZikZak
Verðlaunamyndin Andið eðlilega í leikstjórn Ísoldar Uggadóttur verður frumsýnd í kvikmyndahúsum landsins föstudaginn 9. mars. Vísir frumsýnir nú fyrstu stiklu myndarinnar en hana má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Andið eðlilega var heimsfrumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar þar sem Ísold var valin besti leikstjórinn í flokki alþjóðlegra kvikmynda. Ísold Uggadóttir er leikstóri og handritshöfundur myndarinnar en þetta er hennar fyrst kvikmynd í fullri lengd. 

Þá hlaut myndin hin virtu FIPRESCI verðlaun alþjóðlegra gagnrýnenda, er hún var Evrópufrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í febrúar.

Andið eðlilega fléttar saman sögum tveggja ólíkra kvenna, hælisleitanda frá Gíneu-Bissá og ungrar íslenskrar konu sem hefur störf við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Leiðir þeirra liggja saman á örlagastundu í lífi beggja og tengjast þær óvæntum böndum.

Með aðalhlutverk fara Kristín Þóra Haraldsdóttir, Babetida Sadjo og Patrik Nökkvi Pétursson.

Íslold hefur áður leikstýrt stuttmyndunum Góðir gestir, Njálsgata, Clean og Útrás Reykjavík, sem allar voru valdar til sýninga á kvikmyndahátíðum víða um heim og hlutu fjölda viðurkenninga. Ísold lauk meistaranámi í leikstjórn og handritagerð frá Columbia háskóla í New York vorið 2011.

Skúli Fr. Malmquist framleiðir myndina fyrir hönd Zik Zak kvikmynda, en meðframleiðendur eru þær Inga Lind Karlsdóttir, Lilja Ósk Snorradóttir og Birna Anna Björnsdóttir, auk meðframleiðenda frá Belgíu og Svíþjóð.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×