Innlent

Ofbeldi, áreitni og mismunun í prestastétt

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Séra Guðrún Karls Helgudóttir afhendir biskup áskorun prestvígðra kvenna. Fréttablaðið/Vilhelm
Séra Guðrún Karls Helgudóttir afhendir biskup áskorun prestvígðra kvenna. Fréttablaðið/Vilhelm
„Auðvitað er þetta vandmeðfarið í fámennri stétt eins og okkar,“ segir Jóhanna Gísladóttir, prestur í Langholtskirkju og formaður Félags prestvígðra kvenna, um yfirlýsingu kvenna sem stigu fram í gær í tengslum við #metoo byltinguna. Sextíu og fimm konur skora á biskup, kirkjuráð, kirkjuþing, presta og sóknarnefndir að beita sér fyrir siðbót hvað varðar vinnuumhverfi kvenna, prestvígðra og annarra í kirkjunni.

„Við höfum líkt og aðrar konur búið við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun. Sögur okkar kvenna í samfélaginu eru allar eins. Við töldum nauðsynlegt að styðja við bakið á kynsystrum okkar og deila okkar sögum,“ segir Jóhanna.

Hún segir að konur í Félagi prestvígðra kvenna hafi byrjað að ræða saman sín á milli í desember. Þær hafi síðan fundið hvatningu í nýársávarpi Agnesar M. Sigurðardóttur biskups til að stíga fram. „Agnes ræddi #metoo byltinguna í nýársávarpi sínu og það var okkur hvatning til að stíga loks fram,“ segir Jóhanna sem segir kvenpresta sammála um að vel hafi verið tekið í áskorun þeirra.

Samhliða áskoruninni birtu prestarnir í gær yfir sextíu sögur þar sem þær lýsa kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun á vinnustöðum sínum. Agnes M. Sigurðardóttir biskup brást við áskorun og frásögnum kvennanna. Hún sagðist þakklát öllum þeim sem stigið hefðu fram og sagt frá reynslu sinni. „Ég tek hjartanlega undir þá sanngjörnu og eðlilegu kröfu sem prestvígðar konur hafa sett fram. Ég mun leggja mig alla fram við að bæta starfsumhverfi kvenna og samskiptin milli fólks í kirkjusamfélaginu,“ sagði Agnes.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×