Íslenski boltinn

Eysteinn Húni: Megum ekki fara í neina sjálfsvorkunn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Keflavík hefur ekki enn unnið leik í Pepsi-deildinni.
Keflavík hefur ekki enn unnið leik í Pepsi-deildinni. vísir/bára
„Þetta er mjög súrt og óþolandi en ég verð að taka ábyrgðina á þessu. Ég ákvað að keyra inn í leikinn, fara ofar með liðið og í byrjun leiks fáum við tækifæri. Ef við hefðum skorað þá hefði þetta verið breyttur leikur,“ sagði Eysteinn Húni Hauksson þjálfari Keflavíkur eftir 3-0 tap liðsins gegn nágrönnunum í Grindavík í Pepsi-deildinni í kvöld.

Keflavík byrjaði ágætlega en eftir að Grindvíkingar komust yfir virtust Keflvíkingar svolítið missa trúna á að þeir gætu unnið sig til baka inn í leikinn.

„Mörkin draga dálítið úr okkur og markið í byrjun seinni hálfleiks nánast drepur okkur. Við megum ekki láta það gerast, sama hvernig staðan er þá verðum við að halda áfram að þjappa okkur saman og hafa góð áhrif á hvorn annan,“ bætti Eysteinn við en Keflavík hefur ekki unnið leik í sumar og ekki skorað mark síðan 4.júní.

„Það þarf hrikalega sterk bein til að standa í þessu og er ekkert fyrir hvern sem er. Það er allavega engin uppgjöf í mér og við förum yfir þetta á morgun og stefnum á að gera betur í þessum leik.“

Þetta var annar leikurinn sem Eysteinn stjórnar eftir að hann tók við sem þjálfari af Guðlaugi Baldurssyni. Hverju hefur hann helst verið að vinna í hjá liðinu eftir að hann tók við?

„Það er hugarfarið hjá mönnum fyrst og fremst. Koma því í gang að menn missi ekki trúna og að þeir sjái að það séu leiðir til að vinna leikina. Þær eru til staðar þó við höfum steinlegið í dag, þetta er ekki vonlaust.“

Það var fínasta mæting á leikinn í dag og ekki síst hjá stuðningsmönnum Keflavíkur sem virðast síður en svo vera búnir að gefa upp vonina þrátt fyrir dapurt gengi liðsins.

„Ég á varla orð yfir okkar stuðningsmenn að þeir skuli ennþá standa með okkur, mæta svona margir og vera að hvetja hér í lokin. Það sýnir gríðarlegan karakter. Við megum náttúrulega ekki fara í neina sjálfsvorkunn því við þurfum að þjappa okkur saman og vinna þetta saman.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×