Erlent

Lögregla kveðst vita hvar Sunniva var myrt

Atli Ísleifsson skrifar
Lík Sunnivu fannst skammt frá heimili hennar eftir að hún skilaði sér ekki heim eftir heimsókn til vinkonu.
Lík Sunnivu fannst skammt frá heimili hennar eftir að hún skilaði sér ekki heim eftir heimsókn til vinkonu. Vísir/EPA/lögreglan
Lögregla í Rogalandi í Noregi kveðst vita hvar hin þrettán ára Sunniva Ødegård hafi verið drepin, en vill gefa upp á þessari stundu hvar það var eða hvort það hafi verið á sama stað og hún fannst látin á mánudagsmorgun.

Þetta segir Bjørn Kåre Dahl, lögreglumaður í Suðvesturumdæmi norsku lögreglunnar, í samtali við NRK.

Lík Sunnivu fannst skammt frá heimili hennar í Varhaug eftir að hún hafði ekki skilað sér heim eftir heimsókn til vinkonu sinnar.

Í frétt NRK kemur fram að lögregla telji sig örugga um að vera með banamann Sunnivu í haldi, en sautján ára piltur var handtekinn, grunaður um verknaðinn, á mánudag. Dahl segir að ekkert bendi til að aðrir tengist málinu.

Pilturinn hefur viðurkennt að hafa brotist inn á nálægan leikskóla á sunnudagskvöldið, en neitar að hafa banað stúlkunni. Pilturinn er norskur ríkisborgari og hefur lengi verið til heimilis í Varhaug, ekki langt frá heimili Sunnivu.

Gengur erfiðlega að yfirheyra piltinn

Lögregla hefur nokkrum sinnum gert tilraun til að yfirheyra piltinn, en sá hefur ítrekað slitið yfirheyrslunum. Hann hefur þó staðið fast við að hann sé saklaus í málinu. Reiknað er með að önnur tilraun verði gerð til að yfirheyra hann snemma í næstu viku. Honum er nú haldið í unglingafangelsinu í Bergen.

Lögregla óskaði í gærkvöldi eftir að komast í samband við par á þrítugsaldri sem á að hafa verið á rölti nálægt staðnum þar sem Sunniva fannst látin á mánudag. Parið hefur enn ekki gefið sig fram við lögreglu.

Alls hafa um fjörutíu manns verið yfirheyrðir vegna málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×