Innlent

Vegum lokað vegna veðurs

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það viðrar ekki svona vel á Öxnadalsheiði þessa stundina.
Það viðrar ekki svona vel á Öxnadalsheiði þessa stundina. Vísir/Vilhelm
Vegirnir um Öxnadalsheiði, Víkurskarð, Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði eru lokaðir vegna veðurs.

Björgunarsveitarmenn úr þremur björgunarsveitum á Norðausturlandi voru fram undir miðnætti að aðstoða fólk í föstum bílum á Vopnafjarðarheiði, Möðrudalsöræfum og á Jökuldal, en fyrstu beiðnir um aðstoð tóku að berast um kvöldmatarleytið. Afleitt veður var á þessum slóðum, hvassviðri, snjókoma og skafrenningur og má gera ráð fyrir svipuðu veðri þar áfram í dag.

Af annarri færð segir á vef Vegagerðarinnar:

Á Suður- og Suðvesturlandi er hálka eða hálkublettir á vegum en snjóþekja eða krapi á nokkrum leiðum. Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er víða á Vesturlandi. Ófært er um Svínadal og töluvert hvasst undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi.

Á Vestfjörðum er víðast hálka, snjóþekja og éljagangur. Þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði og Klettsháls en ófært er á Þröskuldum, Mikladal og Hálfdán.

Á Norðurlandi er víða hálka, hálkublettir og snjóþekja. Víða er einnig snjókoma, él og skafrenningur. Flughálka er milli Fljóta og Hofsóss, þæfingur milli Hofsóss og Sauðárkróks og þungfært yfir Þverárfjall. Vegirnir um Öxnadalsheiði, Víkurskarði, Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru lokaðir. Ófært er um Dalsmynni og Hólasand.

Hálka, snjóþekja, éljagangur eða skafrenningur er á Austurlandi. Þæfingur er á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, þungfært er á Fagradal en ófært á Fjarðarheiði, Vatnsskarði eystra, Breiðdalsheiði og Öxi. Hálka eða hálkublettir er á Suðausturlandi en hvessa á töluvert í Öræfum og Suðursveit eftir því sem líður á daginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×