Myndband af atvikinu var birt á Vísi í dag en ljóst er að litlu mátti muna að illa færi. Í myndbandinu sést bílstjóri strætisvagns á leið 51 til Reykjavíkur taka fram úr nokkrum bílum í brekku um Þrengslin. Framúrakstur er bannaður á vegkaflanum.
Þvert á gildi um ábyrgan akstur
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir í samtali við Vísi að hann hafi fengið ábendingu um myndbandið seint í gærkvöldi.„Þannig að það fyrsta sem ég gerði í morgun var að koma mér í samband við verktaka sem ekur leið 51 á Suðurlandi. Hann horfði á þetta og það voru sömu viðbrögð hjá honum og okkur, manni er brugðið þegar maður sér þetta,“ segir Guðmundur
„Þetta er ekki aðeins brot á umferðarlögum heldur gengur líka þvert á öll gildi sem við setjum okkar vagnstjórum um ábyrgan akstur.“
Taka strax á málinu
Guðmundur segir að strax verði tekið á málinu en rætt verður við bílstjóra vagnsins í dag. Gert er ráð fyrir að hann hljóti áminningu vegna framúrakstursins.„Við hörmum þetta atvik en sem betur fer fór ekki verr í þessu tilviki. Verktakinn mun setjast niður með bílstjóranum í dag og við förum yfir þetta mál, það er tekið á þessu strax.“
Aðspurður segir Guðmundur það ekki algengt að Strætó berist myndskeið af þessu tagi vegna aksturs vagnanna á landsbyggðinni.
„En við höfum alveg fengið ábendingar um aksturslag. Þær eru alltaf skráðar og þeim komið áfram.“
Eins og áður hefur komið fram var umferð beint um Þrengsli á föstudag vegna framkvæmda við malbikun á Hellisheiði. Þannig var ekki um hefðbundna leið 51 að ræða í umrætt skipti. Þá verður strætisvögnum áfram ekið um Þrengsli í dag vegna lokana á Suðurlandsvegi og Hellisheiði.