Skoðun

Langtímasýn um fjöregg þjóðarinnar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Einn mesti auður Íslendinga felst í náttúru landsins. Hún er og hefur verið undirstaða velmegunar, atvinnulífs og afkomu þjóðarinnar um aldir. Þá hefur hún mikið aðdráttarafl fyrir þá sem vilja njóta þeirrar ómetanlegu fegurðar sem landslag, jarðmyndanir, gróður, lífríki og önnur undur íslenskrar náttúru hafa upp á að bjóða. Stöðugur og sívaxandi straumur ferðamanna á náttúrusvæðum landsins er ein skýrasta birtingarmynd þessa.

Öll höfum við notið góðs af þeirri hagsæld sem auknar heimsóknir ferðamanna hingað til lands hafa haft í för með sér. Á sama tíma er brýnt að gæta að því að aukið álag vegna heimsókna ferðamanna valdi því ekki að náttúran beri skaða af. Það þarf að gæta fjöreggsins af kostgæfni.

Nýrri landsáætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum, til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, er einmitt ætlað að takast á við þetta verkefni. Drög að áætluninni voru lögð fram til kynningar á nýrri samráðsgátt Stjórnarráðsins á dögunum en um er að ræða stefnumarkandi áætlun til tólf ára sem gert er ráð fyrir að verði samþykkt sem þingsályktun frá Alþingi síðar í vor. Samhliða áætluninni er einnig í kynningu þriggja ára verkefnaáætlun, þar sem settar eru fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti fjárstuðnings á árunum 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu. Einnig verður fjármagni veitt í að leiðbeina við gerð innviða svo þeir falli sem best að landslagi og náttúru.

Um tímamót er að ræða því þetta er í fyrsta sinn sem tekið er á auknu álagi á náttúru landsins af völdum aukins ferðamannaþunga með heildstæðum og samræmdum hætti og með langtímamarkmið að leiðarljósi. Þannig er áætluninni ætlað að veita yfirsýn yfir brýnustu verkefnin á þessu sviði og tryggja að því fjármagni sem ætlað er til innviðauppbyggingar sé varið með sem skilvirkustum hætti. Ég vil hvetja alla til að kynna sér drögin að lands­áætluninni á samradsgatt.island.is, en þar má einnig skila umsögnum til 26. febrúar næstkomandi.

Höfundur er umhverfis- og auðlindaráðherra




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×