Skoðun

Minning látinna og snjallsímar

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Næsti sunnudagur, 4. nóvember, er merkilegur fyrir þær sakir að þá er minning látinna haldin í kirkjum landsins í tilefni af allra heilagra messu sem er löng og djúphugsuð hefð. En dagurinn er líka mikilvægur vegna þess að þá er símalaus sunnudagur Barnaheilla þegar samtökin skora á landsmenn að segja skilið við símann í einn dag og vakna til umhugsunar um áhrif símanotkunar á samskipti innan fjölskyldna.

Ein af frumþörfum okkar er að hafa tengsl. Lát ástvinar er sárt tengslarof. Margt aldrað fólk var alið upp við það að best væri í sorgar­úrvinnslu að nefna sem sjaldnast þann sem látinn er. Þannig myndi sorgin fyrr dofna.

Sem betur fer vitum við í dag að eitt það mikilvægasta í sorgar­úrvinnslu er að halda minningu hins látna á lofti og gera það með skapandi og kærleiksríkum hætti. Ég hef margoft orðið vitni að því hvernig syrgjendur geyma í símanum sínum myndir og mikilvæg skilaboð frá þeim sem er látinn. Og vissulega eru símtækin mögnuð tengslatæki. Hitt er jafn satt að skefjalaus símanotkun einangrar okkur hvert frá öðru og skapar áreiti.

Á símalausa sunnudeginum skulum við gefa hvert öðru og einkum börnunum þá gjöf að láta enga snjallsímanotkun trufla góðan leik eða innihaldsríka nærveru. Ég skora á okkur að leggja símanum þennan dag og iðka samveru með ástvinum, taka engar myndir en njóta þess að enn er tími til að horfast í augu, tala saman og faðmast. Minning látinna og símalausi sunnudagurinn fara vel saman, því við heiðrum minningu hinna látnu best með því að nota tímann með þeim sem eftir lifa og vera þakklát að enn skuli vera hægt að slá á þráðinn.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×