Fótbolti

Þjálfari Argentínu: „HM er eins og hlaðin byssa við höfuð Messi“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi er alltaf undir pressu.
Lionel Messi er alltaf undir pressu. vísir/getty
Jorge Sampaoli, landsliðsþjálfari Argentínu í fótbolta, segir pressuna á Lionel Messi, sem margir telja besta fótboltamann heims og jafnvel allra tíma, að vinna HM vera ógnvænlega og að hún hafi neikvæð áhrif á hann.

Þetta skrifar Sampaoli í bók sem kemur út í apríl en kafli úr hinni birtist í blaðinu Viva þar sem Sílemaðurinn segir: „Messi er með byssu við höfuðið sem kallast heimsmeistaramótið. Ef hann vinnur ekki HM verður hann skotinn og drepinn.“

Sampaoli segir Messi ekki geta notið hæfileika sinna út af pressunni og hann sé að upplifa það, að pressan á Messi í kringum landsliðsboltann er hreinlega að skemma þennan magnaða leikmann.

„Eins og staðan er finnst mér ég vera að þjálfa besta leikmann sögunnar. Þetta er maður sem hefur verið sá besti í tíu ár,“ segir Sampaoli.

„Það er erfitt að stýra hóp manna þegar að leiðtogi hans veit að hann er betri en þú. Hann framkvæmir hluti sem enginn annar getur gert,“ segir Jorge Sampaoli.

Argentína mætir Íslandi í fyrsta leik á HM 16. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×