Skoðun

Hnarrreist um stund

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Ég var nýverið stödd í læknisheimsókn með drengina mína í Kaliforníu, þar sem þeir eru að innritast í skóla. Þá rann upp fyrir mér að ég ætlaði fyrir löngu að vera búin að láta bólusetja þá gegn HPV-veirunni. Ég reyndi að réttlæta hugsunarleysið með annríkum stundum daglegs lífs – þó að ég vissi innst inni að þetta væri hreinn og beinn trassaskapur.

Ég myndi seint fyrirgefa sjálfri mér ef barnið mitt greindist með sjúkdóm sem hefði verið hægt að fyrirbyggja. Hafandi starfað við rannsóknir á árangri bóluefnis gegn HPV tel ég að strákum eigi að gefast kostur á slíkri bólusetningu jafnt sem stúlkum. Karlar geta greinst með krabbamein af völdum HPV þó það sé fátíðara en hjá konum.

Talsverðu fargi var því af mér létt þegar drengjunum var boðin bólusetning gegn 9 stofnum af HPV-veirunni (stofnum sem valda kynfæravörtum og krabbameini) í umræddri læknisheimsókn. Þeim var einnig boðin bólusetning gegn lifrarbólguveiru A og B, sem ég þáði auðmjúk.

Því þegar öllu er á botninn hvolft þá hafa bólusetningar útrýmt eða haldið í skefjum fjölmörgum sjúkdómum sem hér áður fyrr leiddu til ótímabærra dauðsfalla eða örkumla. Í Bandaríkjunum greinast um 12.000 karlar með HPV-tengd krabbamein á hverju ári. Ef við heimfærum þessar tölur gerir það um tólf karla á Íslandi. Eitt tilfelli, sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir, er einu tilfelli of mikið.

Á Íslandi væri ég líklega enn á leiðinni að láta bólusetja drengina en nú geng ég hnarrreist yfir því að hafa gert það sem í mínu valdi stendur til að minnka líkur þeirra á að fá lífshættulegan sjúkdóm. Þangað til ég man eftir einhverju öðru sem ég hef gleymt.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×