Sérfræðingar sem hafa rannsakað flugslysið sem varð austur af Moskvu á sunnudaginn segja að ísing í hraðaskynjurum kunni að hafa orsakað slysið þar sem 71 maður fórst.
BBC greinir frá málinu. Rannsakendur telja að ísingin kunni að hafa valdið því að flugstjóri hafi fengið rangar upplýsingar um á hvaða hraða vélin var.
Vél flugfélagsins Saratov Airlines var af gerðinni Antonov An-148 og voru 65 farþegar og sex áhafnarmeðlimir um borð. Flugvélin hvarf af ratsjám nokkrum mínútum eftir flugtak, en hún var á leiðinni frá höfuðborginni Moskvu en til borgarinnar Orsk í Úral-fjöllum.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur skipað sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka slysið.

