Rússneski fyrrverandi njósnarinn Sergei Skrípal hafði veitt fulltrúum erlendra ríkisstjórna upplýsingar um rússnesku leyniþjónustuna síðustu árin áður en eitrað var fyrir honum á Bretlandi í mars. Bresk stjórnvöld hafa sakað Rússa um að hafa staðið að baki morðtilræðinu.
New York Times greinir frá því að Skrípal hafi ferðast víða eftir að hann kom til Bretlands árið 2010. Hann hafði starfað fyrir rússnesku leyniþjónustuna en var dæmdur fyrir gagnnjósnir í þágu Breta og fangelsaður. Skrípal fékk óvænt að fara til Bretlands í fangaskiptum fyrir átta árum.
Á fundum með leyniþjónustumönnum landa eins og Tékklands og Eistlands á Skrípal að hafa veitt upplýsingar um störf rússnesku leyniþjónustunnar. Bandaríska blaðið hefur þetta eftir evrópskum leyniþjónustumönnum. Leiðir blaðið að því líkum að þessir fundir hafi getað gert Skrípal að skotmarki rússneskra stjórnvalda.
Skrípal og dóttur hans Júlíu var byrlað taugaeitrið novichok í bænum Salisbury á Bretlandi 4. mars. Bresk stjórnvöld hafa sakað rússnesk stjórnvöld um að hafa staðið að tilræðinu en því hafa Rússar neitað harðlega.
Andrew Parker, forstjóri bresku leyniþjónustunnar MI5, sakaði stjórnvöld í Kreml um „grímulausar lygar“ og „glæpsamlegan óþokkaskap“ á fundi með starfsbræðrum sínum í Þýskalandi í dag.
Ekki er ljóst hvort að rússneska leyniþjónustan hafi vitað af leynilegum fundum Skrípal með evrópskum leyniþjónustumönnum síðustu árin. Vitað er að Rússar fylgdust með Skrípal-feðginunum. Þeir brutust meðal annars inn í tölvupóst Júlíu árið 2013.
