Innlent

Hvorki fást svör né gögn frá kirkjuráði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Oddur Einarsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, í miðið og Agnes M. Sigurðardóttir, biskup og forseti kirkjuráðs, á göngum biskupsstofu ásamt Magnúsi E. Kristjánssyni, forseta kirkjuþings sem velur í kirkjuráð. Undir kirkjuráð heyra kirkjustaðir og ýmsar stofnanir.
Oddur Einarsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, í miðið og Agnes M. Sigurðardóttir, biskup og forseti kirkjuráðs, á göngum biskupsstofu ásamt Magnúsi E. Kristjánssyni, forseta kirkjuþings sem velur í kirkjuráð. Undir kirkjuráð heyra kirkjustaðir og ýmsar stofnanir. Vísir/Vilhelm
Ekkert hefur gengið að fá gögn frá kirkjuráði varðandi margvísleg mál þrátt fyrir marg­ítrekaðar óskir Fréttablaðsins síðustu þrjá og hálfan mánuð. Engar skýringar hafa fengist frá þjóðkirkjunni vegna þessa.

Upphaflegt erindi var sent 19. október síðastliðinn á póstfang þjóðkirkjunnar og til Odds Einarssonar, framkvæmdastjóra kirkjuráðs. Þar var óskað eftir afriti ýmissa gagna sem lögð höfðu verið fram á fundi kirkjuráðs rúmum mánuði fyrr, þann 12. september.

Meðal skjalanna sem óskað var eftir aðgangi að var erindi frá félagi sem heitir AS Hótel og er í fundargerð kirkjuráðs sagt varða kaup á lóðum úr landi kirkjujarðarinnar Heydala á Austurlandi. Kemur fram að kirkjuráð fól framkvæmdastjóranum að svara erindinu. Einnig var um að ræða erindi frá ónefndum aðila um ósk um viðræður um kaup á landspildu á Valþjófstað. Sömuleiðis var bréf frá Lögmönnum Höfðabakka sem óskuðu liðveislu í dómsmáli varðandi Kálfafellsstað.

Þá óskaði Fréttablaðið eftir ýmsum erindum sem varða veiðiréttarmál í Affallinu annars vegar og Miðfjarðará hins vegar. Eitt málið snýst um kunnuglegt atriði úr nútíma fasteignasögu þjóðkirkjunnar og er um niðurstöðu myglurannsóknar Náttúrufræðistofnunar Íslands í prestbústaðnum á Reykhólum.

Þegar þessari beiðni hafði ekki verið svarað 1. nóvember var hún ítrekuð og í leiðinni óskað eftir gögnum af næsta fundi kirkjuráðs þar á eftir sem fram hafði farið 10. október. Þar var til dæmis um að ræða greinargerð framkvæmdastjóra vegna stöðu Skálholts og erindi sóknarnefndar í Breiðholtssókn og Fella- og Hólasókn um sameiningu sóknanna.

Skjalastjóri biskupsstofu, Ragnhildur Bragadóttir, afsakaði tafir á afgreiðslu málsins með tölvupósti 9. nóvember. Skýringin væri meðal annars miklar annir vegna kirkjuþings sem þá var fram undan. „Skal pressa á viðkomandi og fylgja málinu fast eftir,“ sagði í skeyti skjalastjórans. Annað skeyti barst 14. nóvember. „Hef sent biskupsritara orðsendingu um að hann svari þér hið snarasta.“

Síðast heyrðist frá þjóðkirkjunni varðandi þessi mál 8. desember síðastliðinn. „Það er á mínu borði að svara þér en vandamál mitt er að fljótlega hættir að sjást í borðið mitt fyrir málum. Síðasti kirkjuráðsfundur ársins verður á þriðjudaginn og ég lofa að eftir hann skuli ég sinna þér,“ segir í tölvuskeyti sem barst þann dag frá Oddi Einarssyni, framkvæmdastjóra kirkjuráðs. Ítrekuðum óskum um afgreiðslu málsins, síðast fyrir átta dögum, hefur síðan í engu verið svarað.

Beiðnum um afrit af gögnum sem lögð hafa verið fyrir kirkjuráð hefur fram að þessu jafnan verið svarað. Oft hafa umbeðin gögn verið afhent en stundum ekki á þeim grundvelli að um trúnaðargögn sé að ræða. Agnes M. Sigurðardóttir biskup er forseti kirkjuráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×