Innlent

Fínasta þrettándaveður í kortunum

Atli Ísleifsson skrifar
Þrettándabrennur verða á þremur stöðum í Reykjavík.
Þrettándabrennur verða á þremur stöðum í Reykjavík. Reykjavikurborg
Veðurstofan spáir fínasta þrettándaveðri á morgun þar sem búist er við vægu frosti og hægum vindi. Þrettándabrennur hafa verið skipulagðar á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu.

Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að kröpp lægð muni ganga yfir í nótt.

„Hún gengur hratt yfir þannig að það er ágætt veður á morgun og annað kvöld má búast við fínu veðri víðast hvar á landinu. Fínasta þrettándaveður. Það er einkum á annesjum norðanlands sem að verður heldur stífur vindur og einhver él. Hér á höfuðborgarsvæðinu verður logn og fínasta verður.“

Helga segir að suðvestanlands verði ekki eins kalt eins og á gamlárskvöld. „Það verður vægt frost og hægur vindur.“

Þrettándabrennur verða á þremur stöðum í Reykjavík – í Vesturbænum, Grafarvogi og Grafarholti, en einnig í Mosfellsbæ  og á Selfossi. Þá verður sérstök þrettándagleði á Ásvöllum í Hafnarfirði, Englendingavik í Borgarnesi, Edinborgarhúsinu á Ísafirði , Hamri á Akureyri og víðar á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×